Færslur: 2006 Janúar

29.01.2006 23:09

Letidagur

Þetta er nú búinn að vera meiri letidagurinn.Ég vogaði mér ekki út fyrren um 3 leytið en þá var hringt í mig til að líta á tvö hross sem að voru laus hérna rétt hjá Ásgarðinum.Ég stökk út í rigninguna og rokið til að telja hjá mér en allir voru annaðhvort í rúllu eða í skjóli að standa af sér veðrið.Það kom fljótlega í ljós hver átti hrossin og eignadinn var snöggur að koma með hestakerru og fjarlægja þau.

Þá var bara að skella sér í verkin og fór ég úti stóra hesthús og sinnti þar öllum sem að var nú ekki erfitt verk í dag vegna þess að enginn fór út vegna veðurs.Ég var einsog eldibrandur í gegnum kanínusalinn og alla fuglana.Þegar að ég kom aftur út þá tók ég eftir því að það voru leifar af flekkótta kanínuunganum sem ég sá undir gámnum um daginn.Ég veit alveg hver veiddi hann og snæddi hann en tíkurnar hjá mér voru hálflystalausar þegar að Magga bauð þeim í gær matarleifar sem að hún kom með með sér úr bænum.Þær fúlsuðu við matnum frá Möggu í fyrsta sinn og vorum við ekki að skilja hversvegna en núna skil ég það.Það er ekki gott að henda út kanínum fyrir utan búið hjá mér í von um að ég taki þær inn vegna þess að þær verða fljótlega að máltíð hjá hundunum mínum sem að eru ekki sófadýr heldur minkaveiðihundar og geta ekki gert að því þó að ein og ein kanína lendi í gininu á þeim.Þær eru að gera það sem að náttúran og eðlið segir þeim að gera.

Villi og Karen nágrannar mínir eru búin að taka inn hross og var gaman að kíkja í hesthúsið hjá þeim í dag.Það fór um mann fiðringur að sækja hann Biskup austur og reyna kannski að brölta á bak en ég geri það kannski í vor þegar að meira fer að birta og hlýna.Þá ætla ég að vera með Biskup og Vordísi Brúnblesadóttur,svakalega flott með tvö rauðblesótt saman.Svo verð ég að taka hann Þokka bróðir Skjónu minnar fyrir vorið og frumtemja hann fyrir eigandann en því var ég búin að lofa.Það verður spennandi að vita hvort að hann lyftir jafnvel og systur sínar þær Skjóna,Fríða og Díana Drottning!

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (5)

29.01.2006 00:03

Folöld ormahreinsuð

Hér á bæ er alltaf nóg að gera og sleppti ég blogginu í gær vegna anna.Ég var bara svo dugleg frameftir öllu í gærkveldi að ég fór alveg með mig í skrokknum.En hann Hrókur fékk nýju stíuna sína og ég heitt bað og kertaljós með verkjatöflu hehehehe er maður orðinn gamall eða hvað!

Í dag var gestagangur einsog venjulega því að ég er svo skemmtileg:))) Segjum það að minnsta kosti en Magga og Inga komu um hádegið og síða Sigurjóna og dóttir.Stelpurnar skoðuðu hvolpana hennar Skvettu og var mikið gaman hjá þeim.Síðan komu Jón Steinar og Tinna og skelltum við okkur útí stóra hesthús þarsem folöldin Týr og Hemla voru handsömuð og gefið ormalyf.Tinna prófaði hann Hrók á ganginum beislilausann og berbakt og bunaði klárinn með hana fram og tilbaka þangað til að Tinna var farin að hlægja svo mikið að hún var við það að skoppa af honum.Hrók fannst þetta ekki neitt voðalega fyndið svona í restina enda fékk hann ekki mola fyrir bunurnar og skildi ekkert í því hvað Tinna hló og var hann farinn að pæla í því að hossa henni svolítið hærra upp.

Ég fékk hreingerningarkast í kvöld og er ég ekki alveg að fatta mig.En mikið líður manni miklu betur þegar að allt er orðið hreint og fínt inni hjá manni.Reyndar væri voðalega mikill tímasparnaður ef að maður gæti bara dreift spónum og hálmi yfir gólfin hjá sér og látið þar við sitja.Svo þegar að voraði bara moka út með Bobcat.Hm........kannski er það ekki sniðugt?

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (3)

26.01.2006 22:56

Loksins fluttir úteftir!

Við Hebbi vorum rosalega dugleg í dag.Ég setti einangrun í veggina á stíunni í stóra hesthúsinu og jagaði niður plötur sem að Hebbi setti svo upp.Meira að segja er búið að sjóða upp milligerði þannig að stían hans Fönixar er líka tilbúin handa honum þegar að hann kemur úr Háskólanáminu frá Agnari og Kamillu.Folarnir fínu biðu á meðan útí rétt áður en þeir fengu að fara í stíuna og voru orðnir langþreyttir á okkur og allri smíðavinnunni.En svo kom að því að máta þá inní stíuna og ekki voru þeir í neinum vandræðum með að hoppa yfir steypuþröskuldinn sem er soldið hár.Ég smellti af nokkrum myndum og set inn á eftir.

Rosalega var ég mikill snillingur í dag eða þannig sko.Ég var að fara niður að tjörn til andanna með brauð á Fagra Blakk (bílnum mínum)og hann spólaði bara í grasinu og bleytunni þannig að ég stökk út og setti lokuna á öðrumegin og Hebbi minn dreif að konunni til hjálpa og setti lokuna á hinumegin.Síða skellti ég mér inn í bílinn og spólaði og spólaði! Ég þjösnaði bílnum fram og aftur einsog Ómar Ragnarsson sýndi eitt í sjónvarpi að ætti að gera í hálku og fyrir rest kom ég loksins bílnum af stað og að girðingunni hjá tjörninni.Kallinn minn spurði hvernig stæði á því að bíllinn hefði ekki virkað betur hjá mér í fjórhjóladrifinu..............hehehehe ég gleymdi að setja það á.Algjör kelling hugsaði ég mér!

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (11)

26.01.2006 00:26

Allir saddir

Ég var aðeins og sein að blogga og er komið yfir miðnætti en þessi færsla gildir fyrir 25.1 en ekki 26.1.Við Hebbi héldum áfram að gefa útiganginum í dag og kláruðum við það sem ég var byrjuð á í gær.Merarnar voru náttúrulega búnar með rúlluna sem ég gaf í gær en þær éta eina rúllu á dag því þær eru svo margar.Alveg er það merkilegt hvað þær geta sumar rifist og slegist útaf engu sérstöku að manni finnst.Samt hef ég tekið eftir því að þær raða sér helst saman eins á hverja rúllu eftir hvernig þær þekkjast og hversu kjarkaðar þær eru.Molda og Eðja eru alltaf hlið við hlið og eru fleiri merar sem að standa hlið við hlið í rúllunum.Heilladís og Sokkadís standa ansi oft hlið við hlið en ég er farin að taka betur eftir þessu þegar að ég mynda þær.Alveg rétt"ég tók cameruna með í dag og tók myndir í stóðhestahólfinu og merarhaganum.

Ekki komust stóðtittirnir uppí stóra hesthús í dag en ég LOFAÐI þeim því að gera það á morgun.Kerran var í útleigu og ekki teymi ég þá í hendinni uppeftir! Hebbi keyrði inn 9 rúllum í stóra hesthúsið og er það cirka 2 mánaða skammtur með rúllunni sem að nýbúið er að opna.Þægilegt að geta sett inn svona mikið magn í einu.

Núna er að lifna yfir kanínusölunni og þarf ég að fara að keyra kanínurnar uppí fóðri svo að hægt verði að para þær fljótlega fyrir kaupanda sem var að panta dýr.Hnoðri fær nýtt heimili og flyst með 3 læðum á sveitabæ rétt fyrir utan Selfoss og er hann að fara að sinna uppáhalds iðju sinni sem er dodododododododo.Fyrrverandi eigandi var orðinn pínu svekkt útí Hnoðra fyrir að klemma sig fastann á fótinn hennar og hristast allur(kannski hló hann svona mikið)?Skrítið hvað þessir högnar hristast alltaf svona mikið!

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (5)

24.01.2006 23:59

Á hálfu hestafli

Eitthvað er maður búinn að vera skrítinn og ekki ganga nema á hálfu hestafli.Kannski að flensudrulla sé að trufla mann en ég vona samt ekki.Mér tókst að gefa nokkrar rúllur í dag og í miðju verki hringdi mína kæra dóttir og boðaði komu sína í sveitina.Auðvitað dreif maður sig heim að hella uppá fyrir krakkaskí......  (aulahúmor á milli okkar mæðgna) því hún er orðin svo fullorðin að hún er hætt að drekka mjólk.Eitthvað hefur hún saknað sveitarinnar því að hún saug næstum upp flórinn í hesthúsinum með öllum skítnum í! Öðruvísi mér áður brá,núna er flórinn bara ilmandi minning í bland við hey lyktina.

Á morgun er ætlunin að flytja fínu stóðhestefnin útí stóra hesthús og hlakkar mig mikið til að sjá þá sprikla þar um.Það ætti líka að fara enn betur um þá þar.Þeir voru úti í allann dag með opið hesthúsið og undu sér vel.Sá stóri svarti er reyndar að kalla á merarnar af og til en er voða kurteis og er einsog hann sé að tala við sjálfan sig hann hneggjar og kumrar svo lágt.Hann hneggjar líka alltaf þegar að ég opna hesthúshurðina og meira að segja líka þó að það sé hey í stöllunum.Við erum orðnir hinir mestu vinir og kanski hann fái að skoða einsog eina meri hjá mér í vor úrþví hann er svona geðgóður og indæll foli.

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (3)

23.01.2006 23:33

Girðingarvinna

Ég var ekkert sérstaklega dugleg í dag og kláraði ekki stíuna hans Hróks einsog ég ætlaði að gera.Fékk mér göngutúr og athugaði hvernig útigangurinn hefði það.Allir voru glaðir að sjá kellinguna en héldu að ég hefði gleymt traktornum til að gefa þeim fleiri rúllur.Þau fá rúllur á morgun og ekkert múður með það.Ég tók svo niður öryggislínuna sem er á milli hólfanna því að það eru hér merarbreddur sem að virða ekki svona einn streng og betra að hafa engann streng en að láta þær kenna ungviðinu að vaða á allt og yfir allt.Alveg makalaust hvað þær geta verið skemmtilegar að láta þetta ekki í friði en ég hef 3 grunaðar um verknaðinn en nefni engin nöfn.En það þarf svosem ekki að hafa þennan streng vegna þess að það eru engir graddar í haganum við hliðina á,bara geldingar.Svo gerði ég við eitt stykki hlið en efri hliðstrengurinn hjá merunum var floginn af öðrumegin.Ég er að verða hliðsérfræðingur en samt virðist vanta eitthvað meir en marglit rör á þau til að merarnar sjái hliðin.Eigið þið einhver góð ráð handa mér?

Fínu stóðhestefnin fengu að vera úti í allann dag og hafði ég hesthúsið opið fyrir þá.en til að vera viss um að ekkert skeði á meðna ég færi f´ra þá setti ég rafmagnsstreng að innaverðu við réttina og Maximus endaði á því að fá rafmagn í nebbann sinn þegar að hann fór að skoða þetta.Hann áttaði sig nú ekki alveg á því hvaðan þetta kom og leitaði á jörðinni purrandi fyrir neðan strenginn þegar að hann fékk högg á makkann.Þá hætti hann að skoða þetta nánar og hypjaði sig frá línunni og ég rölti heim í kaffi og fór svo í stóra hesthúsið útfrá og hleypti Hrók og folöldum útí góða veðrið.Ekki gerði ég nú meira vegna bakverkja sem að gerðu meira vart við sig eftir smíðavinnuna síðustu daga. En þetta hlýtur að lagast ef ég fer varlega og þá skal nú klára útfrá svo að folarnir fínu geti flutt. 

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (3)

22.01.2006 22:50

Sjóða,saga og negla

Nú er stían hans Hróks að verða tilbúin.Klára hana á morgun en ég á bara eftir að setja einangrun á útvegginn og klæða yfir með viðarplötum.Þá getur klárinn flutt í nýju fínu stíuna og haldið áfram að skíta sig upp.Stóra stían hinumegin er líka að verða tilbúin fyrir stóðhestefnin fínu sem að bíða spenntir eftir að komast úteftir í fjörið þar.Það verður miklu auðveldara að hugsa um þá þar en í heimahesthúsinu þarsem ég þarf að moka daglega.Folarnir voru ekkert á því að koma inn í kvöld en ég klikkaði á heygjöfinni og gaf heldur hressilega sem að þýddi það að þeir vildu ekki inn.En það þýðir nú lítið að malda í móinn við mig og inn fóru þeir í annari tilraun og hélt hún Tara tík að án hennar aðstoðar hefði þetta aldri gengið upp hehehe.

Anna og Gonni komu í dag og fengu 2 hvolpa fyrir tík sem að missti alla hvolpana sína og er alveg ómöguleg yfir missinum.Vonandi verður hún ánægð að fá þessar litlu mjólkursugur til sín sem eru núna orðnar cirka 3 vikna boltar.Skvetta stendur sig með afbrigðum vel og mjólkar einsog belja ofaní krílin sín án þess að missa hold sjálf.Anna fékk líka 2 svartar Castor Rex kanínur og er ætlunin hjá henni að rækta svartan Rex fyrir gæludýrabúðina á Selfossi sem að hún er að eignast.

Gunnbjörn og Haukur fengu að fara í fjöruna og náðu þeir 7 skörfum.Hebbi gaf þeim heitt kakó eftir útileguna sem að stóð langt framí myrkur.Duglegir drengir að bera björg í bú.Hvað það endist lengi veit maður nú ekki vegna yfirvofandi Fuglaflensu.Það er eins gott að eiga eitthvað af Loop kanínum í pottinn þegar að kjúklingurinn hættir að fást útí búð!

 

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (4)

21.01.2006 23:58

Dugleg í dag

Mikið agalega vorum við Hebbi minn dugleg í dag.Vorum að smíða og sjóða útí hesthúsinu okkar stóra.Ég jagaði sundur járnplötur á veggina og Hebbi sauð upp nýju stíuna hans Hróks.Hann verður að fá nýja stíu ekki seinna en strax áður en hann sturtast úr hinni vegna mikils úrgangs frá honum.Hann fær svolítið vel að éta klárinn enda stór skepna og þarf mikið.Á morgun á svo að klára og reyna jafnvel að mála líka! Fínt skal það líka fyrir pungana fjóra hans Agnars og svo fer hann Fönix að koma úr "hestaháskólanum" frá Agnari í Gusti.Þá verður allt að vera fínt og flott svo að Fönix fari ekki bara að heiman eftir svona fína vist hjá Agnari.

Nú erum við bóndi minn búin að þróa hollan og góðan ís fyrir Ísvélina góðu.Ef að þið hafið áhuga á uppskriftinni þá læt ég hana fljóta hér með. 2 Bananar-1 lítill poki Kasjú hnetur 1 dós Bio jarðaberja jógúrt-8 Döðlur-2 dl Kókós mjólk-2 dl Sojamjólk.Setja allt saman í blandara og blanda vel saman.Skella þessu í ísvéilna eða einfaldlega setja blönduna í box og í frysti.Það er hægt að blanda saman nánast öllu mögulegu sem manni dettur í hug og hægt er að frysta.Mér fannst þessi blanda svo góð að ég varð  að blogga henni:))))

Ég var í dag að hugsa meðan ég var að vinna í hesthúsinu mínu ýmislegt um hesthús og innréttingar.Flest byrjuðum við í kofum hingað og þangað og var oft mikil stemning í kringum hestamennskuna.Ég byrjaði mína hestamennsku í Húnavatnsýslunni nánar tiltekið á Kagaðarhóli 11 ára gömul.12 ára var ég í Gusti,13 ára í Blesugrófinni,14 ára í Fjárborg ,15-16 ára í Turner bragganum hjá Sigtryggi Yfirlögregluþjóni.Aftur í Gust og þaðan í Fjárborgina.Næst þræddi maður húsin á Mánagrundinni svo í hesthúsin í Innri-Njarðvík og aftur á Mánagrundina.Þaðan lá leið mín í kofann "minn"í Garðinum og þar leið mér voðalega vel og hestunum mínum líka.Það endaði svo með því að ég eignaðist mitt eigið hesthús í Ásgarðinum fyrir um 8 árum síðan.Það eru ófá handtökin í öllum hesthúsunum og hesthúskofunum.Ekki hefði maður viljað missa af allri þessari lífsreynslu og öllum þessum ævintýrum í kringum hestastússið allt saman.Þó hefði ég viljað sleppa við það þegar að ég labbaði sem oftast frá Breiðholti og uppí Fjárborgina en eitt sinn þá var ég að stytta mér leið yfir Elliðaárnar á ís og var ég næstum dottin í gegn þegar að hann brast undan mér.Ég var einsog köttur og náði að komast yfir næstum þurr í fæturnar.Allt þetta labb og brölt bara til að komast í snertingu við hestana og fá að skreppa á bak.

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (0)

20.01.2006 23:59

Hesthúsa heimsóknir

Það er nú meira hvað hesthús í dag eru orðin flott!Ég og minn maður fórum í Gust í Kópavoginum en þar voru vinafólk okkar með opið hesthús í tilefni af nýjum innréttingum og lagfæringum og það er ekkert smá flott hjá þeim!Ég var nú farin að halda að ég næði engum myndum af hesthúsinnréttingunum fyrir gestafjölda sem var alveg ofboðslegur.Það voru stór nöfn þarna allt uppí Bæjarstjórann í Kópavogi svo ekki sé minnst á Fetbóndann sem fór hamförum í restina með sögum og vísum á móti Sveinbirni Lögfræðing.Í næsta hesthúsi var líka opið hús og auðvitað kíkti maður þangað líka en það var sama sagan þar fólksfjöldinn alveg óskaplegur og það vantaði ekki veitingarnar á báða staði.Ég náði nokkrum myndum í restina af hesthús innréttingum og horossum í fallegum litum.Best að skella inn nýju albúmi með mynum af hestamönnum og hestatengdu efni.Ég þakka kærlega fyrir frábært kvöld Hulda mín og Bjarni,það var rosalega gaman að koma til ykkar og sjá þetta allt saman hjá ykkur.

Svo heyrði maður ýmislegt sem er að ske annarstaðar:)))Það er eitthvað svakalegt að ske í Grindavíkinni og var mikið rætt fram og til baka um Grindjána og bjarta framtíð þeirra.Ég segi ekki orð meir því ég veit ekki hvað má segja þó svo að stóru nöfnin í hrossaræktinni megi segja frá!En kræstur hvað þetta er allt spennó,ég held að ég flytji bara til Grindavíkur!

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (7)

18.01.2006 23:28

Rólegheit í dag

Þetta var nú meiri rólegheita dagurinn í dag enda Gemsinn minn týndur frameftir öllum degi.Mér fannst líka eitthvað skrítið hvað hann þagði!En einsog venjulega þá fann ég hann í bílnum seinnipartinn og voru nokkur missed call á honum.Reyndar var ég komin á fætur fyrir allar aldir en ég vaknaði klukkan fimm í morgun við að Hebbi var ekki farinn í vinnuna sem var kannski ekkert skrítið vegna þess að vinnubíllinn sat fastur fyrir ofan kanínuhúsið okkar í skafli og stórbyl.Aumingja bílstjórinn hjá IGS sá ekkert hvað hann var að fara og ekki tókst þeim að losa bílinn þrátt fyrir öflugan jeppa sem kom á staðinn en spottinn á milli bílanna slitnaði altaf.

Ekki gat ég sofnað strax aftur og fór ég að póstast við hana Sabine vinkonu mína eldsnemma í morgun en hún er mikill morgunhani þveröfugt við mig hehehe.Hún er að vinna í heimasíðunni minni og er hún að verða mjög góð hjá henni.Eitthvað vantar þó af upplýsingum um fleiri merar en þetta kemur allt saman hjá okkur.

Agnar og Kamilla komu í dag að kíkja stóðhestefnin sín og voru folarnir reknir á bás og ormahreinsaðir,teknar upp lappir og stroknir vel og vandlega.Rosalega eru þeir stórir og þá sérstaklega hann Maximus sem er ekki nema veturgamall og er á hæð við Biskup minn sem er nú talinn hár í loftinu.Það verður gaman að sjá hvað framtíðin ætlar þessum folum og hvað verður.Bara spennandi að fylgjast með þeim.Agnar og Kamilla kíktu með mér uppí stóra hesthús og var tekinn  "túr"um húsin og allar dýrategundirnar kynntar.Svei mér þá ef að Agnari leist ekki best á Íslensku Landnámshænuna!

Hrókur fór einsog vanalega með folöldunum út og velti sér heil ósköpin öll í snjónum.Þau sprikluðu um á meðan ég bar undir sag og hálm og kláraði að fóðra kanínur og fugla.Ég var komin inn um níuleytið en þá var ég búin að bæta meiru heyi á graðfolana í heimahesthúsinu.Hvolparnir hennar Skvettu stækka og dafna og núna eru þeir farnir að sjá og skríða um allann kassann sinn.Það fer að líða að því að þeir fái að borða fyrsta matinn og þá verður nú stuð á þeim.Svo er að reyna að koma þessum krílum út,veist þú um gott heimili handa þeim?

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (13)

18.01.2006 07:39

Gjafadagur

Jæja"loksins slotaði veðrinu og hægt var að ná traktornum úr húsi og hefja gjöfina hér í Ásgarðinum.Allir voru orðnir svangir og urðu voða glaðir þegar að þeir heyrðu í traktornum.Það er nú meira hvað hrossin þekkja vel traktorinn sérstaklega þegar að maginn er tómur.Merarnar sprikluðu og hlupu um allann hagann og geldingarnir í næsta hólfi létu ekki sitt eftir liggja og tóku flogaköst um allann hagann.Það voru gefnar út 10 rúllur í dag og tók það okkur um 2-3 tíma að koma þeim til hrossanna vegna þess hve fennt hafði mikinn snjó að heystæðunni.en það voru ánægð hross sem að mauluðu á heyinu og tók ég margar myndir af þeim.

Stóðhestefnin fínu voru drifin útí réttina og látin sprikla í snjónum en þeir voru nú hálffeimnir að taka fyrstu sporin í skaflinn sem að var í réttinni.Þeim leist nú svo illa á þetta fyrst að þeir fóru bara allir inn aftur og varð ég að reka þá uppá skaflinn en eftir fystu stökkin þá var nú skyrpt úr hófum og skalfinn var ekki sjón að sjá eftir atganginn í þeim.Ég náði nokkrum góðum myndum af gaurunum þrátt fyrir myrkrið sem var að skella á.

Síðan var að drífa sig í stærra hesthúsið og sinna Hrók og folöldunum.Þeim leiddist nú ekki að hamast í snjónum og meira að segja Hrókur tók sér smá frí frá því að kljást við þau og spriklaði nokkur spor með þeim "sko gamla minn".Ég kalla hann "gamla"þessa dagana því að hann er einn með 5 folöldum útfrá og hlýtur því að vera frekar gamall í þeirra augum minnsta kosti þó að hann sé á áttunda vetri.Það er nú meira hvað hann er góður við krílin sín sem að hann má helst ekki sjá af.Hann setur alltaf upp áhyggjusvip ef að eitthvert folaldið verður hrætt og fer að hrýna og hleypur til að athuga hvað sé að.Klárinn er farinn að fjúka úr hárum þrátt fyrir að vera í köldu og óupphituðu hesthúsi.Það er gaman að fóðra hann því að hann er alltaf fljótur úr hárum og glansar alltaf í svo fallega á feldinn.

Við náðum að klára að fóðra allar skepnur fyrir fréttatímann og er það ansi snemmt hér á bæ en góð tilbreyting.Skellti ég hrygg í ofninn og gerði heimatilbúinn ís handa okkur seinna um kvöldið í ísvélinni góðu sem ég gaf kallinum í jólagjöf!Hann er vitlaus í ís einsog ég reyndar líka en núna er stefnan sú hjá okkur að gera hollustuís sem hægt er að háma í sig að vild.Stundum læðist nú einn og einn súkkulaði moli með :)))) En hvað um það þegar að meiri hlutinn eru ávextir og hollusta!

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (2)

16.01.2006 23:53

Hestar koma og hestar fara

Er ekki best að blogga síðastliðna daga og ná upp aftur þræðinum.Það er svo mikið búið að ske að ég man ekki nema síðustu tvo daga og verður það svo að vera.Á Laugardeginum komu Magga og Inga og var nóg að gera hjá okkur í hestastússinu.Kobbi á Dúki var á leiðinni með fjögur stóðhestefni mikil sem að verða hjá mér á fóðrum í vetur.Þrír undan 1 verðlaunamerum og allir undan hátt dæmdum hestum.Feðurnir að þeim eru Leiknir frá Vakurstöðum,Galdur frá Laugarvatni,Adam frá Ásmundastöðum og Illingur frá Tóftum.Á meðan við biðum eftir að Kobbi renndi í hlaðið með þennan dýrmæta varning þá skelltum við Magga okkur útí myrkrið og náðum í 8 reiðskólahross sem að áttu að fara í bæinn næsta dag en þarsem Kobbi var tómur til baka þá var ákveðið og nota ferðina.Allt gekk að óskum hjá okkur Möggu og náðum við þessum átta hrossum leikandi inn þó að seint væri en karlinn í tunglinu átti góðan þátt í því að við sáum eitthvað úti og svo snjórinn sem að lá yfir öllu.Kobbi kallinn varð olíulaus á Reykjanesbrautinni þannig að hann kom ekki fyrren seint og síða meir en allt reddaðist þetta að lokum og að verða hálfeitt um nóttina hélt hann full lestaður til baka með reiðskólahrossin hans Bigga.Ekki vorum við alveg búnar að öllu því að við skutumst útí stóra hesthús til að huga að Freyju Hróksdóttur sem að var eitthvað að kveinka sér yfir of sterku heyi en hún fékk ekkert að éta um kvöldið því að hún svitnaði svo mikið af heyinu.Hún var orðin þurr og alveg til í að fá tuggu sem hún fékk af skornum skammti þó því að hún var að fara frá mér næsta dag.

Við sváfum vel stelpurnar um nóttina en Magga og Inga gistu hjá okkur í Ásgarðinum á Laugardagsnóttina.Hebbi var farinn í vinnuna sína klukkan fimm um morguninn en við sváfum frameftir og veitt ekki af.Ég var rétt búin að fá mér kaffið mitt og komin í föt þegar að Gunnar Arnars renndi í hlaðið eftir henni Freyju Hróksdóttur sem að nú er að leggja land undir hóf.Hún er að fara þann 22 Janúar til Luxemburgar og þar tekur við henni nýr eigandi sem er agalega spennt að hitta hana.Sú heitir Karin og ætlaði að kaupa Dúnu Hróksdóttur en var númer fjögur í röðinni eftir henni.Ekki var verra fyrir hana að versla Freyju sem er stærri en Dúna en Karin var að leita að hrossi sem að líkur yrðu á að yrði stórt hross í framtíðinni.

Í dag ætluðum við hjónin að gefa útiganginum en vegna veðurs var ekki farið í að ná traktornum út.Blindhríð er búin að vera á köflum og vart sést á milli bæja.Ég er ekki farin að vorkenna hrossunum enn því að þau eru með rúllur hjá sér ennþá síðan fyrir 8-9 dögum.Á morgun á að galla sig upp og bæta heyi á útiganginn.Svo á að versla ormalyf í fínu stóðhestefnin og gefa þeim inn og flytja þá í stóðhestahúsið þarsem þeir verða framá vorið.Mikið hlakkar mig til að sjá sporið í þeim!

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (2)

11.01.2006 23:01

hestagleraugu1.. Nú ætla ég að auglýsa eftir hestagleraugum helst eins þykkum og
kókflöskubotnar.Í gær hefði Silfri þurft þau því hann blessaður hljóp í
gegnum hlið og eina ferðina en fór ég að gera við.Ég er orðin snillingur í
hlið viðgerðum því nýjasta nýtt er að þræða slöngu uppá vírinn til að
blessaðar skepnurnar sjái að það er lokað enn ekki opið.Ég tók fullt af
myndum í gær á meðan ég rölti með girðingunum til að mæla rafmagnið sem að
er í fínasta lagi og mældist það 4000 volt(púlsar of course).Það eru tveir
hesta hérna sem eru ekki par hrifnir af blossunum hjá kellingunni þegar að
hún er að mynda og eru það höfðingjarnir Stelkur og
Rasskelli-Rauður.Sérstaklega er Rasskellir viðkvæmur fyrir þessu og hleypur
um purrandi og frussandi.Svo eru aðrir sem að hreint út sagt njóta þess
þegar að þeim er sýndur áhugi og er það aðalega yngri deildin sem erfitt
getur verið að mynda sökum þess hvað þau klessa sér ofaní myndavélina.Einna
verstur er hann Óðinn Hróksson svo kemur Sokkadís Hróksdóttir og Hamarinn
hennar Valgerðar vinkonu er alveg hófviss um að hann sé aðalfyrirsætan hér á
bæ! Í gærkvöldi fórum við í bæinn og sóttum folaldið Týr frá Hvammi 2
fyrir hana Tinu.Týr var þreyttur og svangur þegar að í Ásgarðinn kom.Reyndar
hafði hann heykörfu í kerrunni sem að hann át óspart úr.Þetta er myndarinnar
folald og veður um á flottu brokki og töltið er laflaust í honum.
Það kom að því að mín vaknaði snemma!Það er annaðhvort í ökkla eða
eyra hjá mér en ég vaknaði fyrir klukkan sex í morgun alveg útsofin og
hress.Einhvernveginn held ég að nýju fínu fæðubótahylkin hafi rifið mig upp
á óæðri endanum.

 

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (2)

09.01.2006 20:35

Dimmt og blautt

Ég verð að fá að kvarta pínulítið yfir veðrinu.Það er ekkert hægt að gera vegna eilífrar rigningar og myrkurs.Og ef það er ekki rigning þá er bara slyddudrulla.Nú líður mér betur!

Í gær kom fallegur rauðjarpur stóðhestur hingað til vetrardvalar og með honum hryssa undan Piltinum sjálfum.Sú heitir Díana og eru þær þá orðnar tvær hér á bæ.Díana Piltsdóttir var ekki alveg að fíla þetta fyrst og hljóp meðfram girðingunum,eitthvað ruglaðist hún og hljóp á hliðið en meiddi sig sem betur fer ekkert.Ég kallaði á merarhópinn heim að hesthúsi en ekki vildi hún sjá þær og varð hin versta við.Vildi hún ekki með neinu móti fylgja þeim eftir aftur niður í hagann svo ég rölti með henni og setti hana í rúllu og var að dunda mér í kringum hrossin þartil hún var búinn að "finna"sig í nýja hópnum.Mikið voðalega geta merarnar verið litlar í sér þegar að þær koma svona á nýjan stað.En Díana var í hópnum í rúllu í dag með hinum merunum og var orðin sátt og róleg.

Gudda vinkona kom í dag og fórum við saman í Bónus að versla.Ég hef ekki komist í búð í nokkra daga vegna bílleysis og varð alveg óð!Það stóð ekki steinn yfir steini þegar að ég hafði farið hamförum um hillurnar í Bónus.Hollt og gott var það sem ég týndi uppúr pokunum þegar að heim kom.Ekkert nema ristilhvetjandi vörur gott fólk.Nú skal taka á því eftir jólin.

Mér tókst að taka myndir í slyddunni og rigningunni og er ekki best að skella þeim inn.Og endilega kvitta í gestabókina!

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (0)

07.01.2006 20:48

Amma gamla!

Enn varð ég "amma" og í þetta skiptið gaut hún Skvetta 5 hvolpum í gær.Fyrsti Fashanaunginn leit dagsins ljós líka en er nú eitthvað ekki nógu brattur á litlu fótunum sínum.Sjáum samt til hvernig honum reiðir af.

Í dag var gjafadagur á útiganginum og notaði ég tækifærið og tók hana Freyju Hróksdóttur undan Moldu.Tamningarmaðurinn minn hann Jón Steinar hafði orð á því að það mætti nú bara fara að skella hnakk á  hana og gera hana reiðfæra hún er svo stór!Svo tókum við hana Von hennar Huldu vinkonu og fór hún með Jóni Steinari inná Mánagrund í þjálfun og áframhaldandi gansetningu því að hún er víst ekki mikið riðin meri miðað við aldur.Síðan skipti ég upp geldingunum frá graðtittunum sem að verða settir núna í sitthvort hólfið.Það eru víst fleiri graðtittir væntanlegir og best að hafa þá bara alla saman.Einn geldingur fær þó að vera með þeim og er það höfðinginn hann Stelkur.Hann er nefnilega ekki alveg með það á hreinu hvort að hann sé geldingur eður ei.En ljúfur og kurteis er hann við fólk,það má hann eiga.

Boggi og Eygló komu í dag að sækja sér heyrúllur og sem betur fer þá komu þau niður í hesthús þegar að merarnar voru inni.Orka Gýmisdóttir var inni og var ég að fussa yfir því að þurfa að fella hana á næstu dögum þegar að Eygló benti mér á að líklega væri merin fylfull!Hún sem lét einsog asni þegar að hún var sett saman við blandað stóð í haust?Hegðaði sér einsog hún væri í bullandi látum!Gerðum við fyltest á merinni með þeim árangri að hún er fylfull jeesssssss.Tók ég inn hana Toppu Náttfaradóttur og testaði hana líka og er hún greinilega ekki með fyli eitt árið enn.Líklega læt ég ekki sónarskoða merarnar mínar aftur fyrir 4000 per stykkið heldur geri þetta sjálf með aldagamalli aðferð sem virðist svínvirka! 

Færslur: 2006 Febrúar

28.02.2006 23:55

Gestagangur og Mjölnir farinn.

Fullt af skemmtilegu fólki kíkti við hjá mér um helgina og í nógu var að snúast.Einna helsta sem ég man voru Boggi og Eygló færandi hendi með guðaveigarnar í Ásgarðinn.Síðan hef ég setið að sumbli og vart geta stunið upp orði.............eða þannig hehehe got ya people! Ekki þýðir að hafa nóg að drekka en systir mín og mágkona sáu um það að ég og Hebbi horféllum ekki og komu færandi hendi með Kentucy sjálfann og Pepsi Max.Það eru nefnilega svo miklar líkur á því að við séum að horfalla hérna í Ásgarðinum eða þannig sko......skilurrru.Ohhhhh.....ég er komin með þessi Silvíu heilkenni einsog næstum því hver einasti Íslendingur.Er ekki hægt að fá pillur við þessum óþverra eða á maður bara að borða eitt sápustykki eða svo og málið er afgreitt!

Við erum svo yfir okkur glöð með nýjustu gestina hér á bæ en það eru vælandi Smyrlar sem eru að taka til í Staragerinu sem að svífur hér um og étur brauðið frá Öndunum og sefur í útihúsunum okkar okkur til mikillar mæðu og ama.Smyrlarnir tveir eru alveg snillingar þegar að þeir sitja fyrir Störunum sem að reyna að leynast allstaðar fyrir þeim.Eltingarleikurinn er alveg rosalegur þegar að Stararnir komu úr felum og fljúgja þá fuglarnir svo hátt á loft að maður varla kemur auga á þá.Þetta kemur sér vel að fá svona sjálboðaliða til Staraeyðingar en Starinn er allstaðar að troða sér með sína hreiðurgerð og lúsafaraldri sem honum fylgir.Hver kannast ekki við það.

Loksins kláruðum við Tittahólfið við stóra hesthúsið og Hrókur fékk að fara út og vígja það.Ekki þótti honum þetta neitt voðalega spennandi sem við vorum búin að gera heldur fór hann bara að kroppa grænu nálarnar sem eru hér um allt eftir hlýjindakaflann.Mér tókst að reka hann til með allskonar skrækjum og látum og náði að mynda einhver spor hjá kauða áður en hann setti niður hausinn til að kroppa meir.En lyktin sem kom frá honum...... mmmmmm nammi grænt gras lykt einsog að sumri:)))

Ég fékk alveg nóg í dag að horfa uppá kallinn minn sveittann að gera Virðisaukaskattskýrsluna í höndunum uppá gamla mátann.Allt skrifað með blýanti og reiknað samviskusamlega á reiknivél í fleiri klukkustundir.Ekker má klikka eða reikna vitlaust.Mín skellti sér í símann og pantaði DKBúbót og núna skal gera þetta rafrænt í gegnum tölvuna og skila öllu heila klabbinu sjálfur.Við verðum á háu tímakaupi við að gera skattaskýrsluna sjálf því að reikningurinn síðustu árin frá Endurskoðandanum okkar en alveg hreint himinnhár.Vel á annaðhundraðþúsund takk fyrir!

 

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (0)

24.02.2006 23:59

Blíða er þetta!

Blíða er þetta dag eftir dag.Ég eyddi nú samt fyrri hluta dagsins inni og baðaði þær Bulsu og Töru gömlu.Síðan var allsherjar hreingerning á baðinu eftir það og ryksugað yfir húsið.Tinna kíkti á mig og fræddi mig á því að Hringur sé að verða betri og berti með hverjum deginum sem líður.Hann er farinn að stimpla á hægu og nú er um að gera að drífa hann Bjögga sæta á Suðurnesin og skera stagið úr klárnum svo hann geti nú farið að sprikla aðeins hraðar með Tinnu.

Næst fór ég myndahring sem byrjaði á hvolpunum sem að viðruðu sig í dag í góða veðrinu.Síðan tók ég nokkar myndir af útigangninum sem sagði mér að það vantaði hey á morgun.Best að hlýða þeim og skella sér í heygjöf á morgun svo að alir séu sáttir og saddir.Ég fékk mér góðan göngutúr og endaði í kanínu/hesthúsinu þarsem að allir fengu að fara út að sprikla.Nema náttúrulega ekki kanínurnar ´því ég nenni nú ekki að elta þær uppi allar saman:))) Folöldin tóku svaka syrpu og Fönix hinn nýji var ekkert nema fótlyftan og lætin þegar að hann fór út.Það munaði engu að ég pakkaði honum Hrók ofaní pappakassa og setti hann uppá loft!Hann var ekkert að eyða sinni fótlyftu á mig og cameruna þannig að ég var ekkert að eyða megabætum í tölvunni á hann hehehehe.

Ég varð eina ferðina enn "amma" í dag því ég heyrði í hænunugum hjá einni sem var að liggja á.Ég þorði ekki að trufla hana og tek bara myndir af krílunum seinna.

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (0)

23.02.2006 23:48

Stelkur fór og Fönix hinn nýji kom.

Jæja gott fólk,þá er einn enn skemmtilegi dagurinn kominn að kveldi.Ég byrjaði á því að skutla kallinum á námskeið hjá IGS inní Keflavík.Reglulega eyðileggja þeir daginn hjá starfsfólki sínu með því að skylda þá til að mæta á frídögum sínum og hlusta á sömu tugguna aftur og aftur og flestir sofna yfir ræðunni.

 

Næst var að kíkja á hvolpa og tíkur en hvolparnir eru búnir að ?taka til? í hesthúsinu þannig að ekki finnst einn einasti hlutur þar.Þeir höfðu náð í gamlann poka af kúlunammi sem hefur tíðkast hér sem nammi handa hrossunum og voru ekki vel hressir í maganum eftir átið.Vonandi læra þeir af reynslunni litlu ormarnir.Á morgun fá þeir að djöflast útivið að vild í góða veðrinu sem að á að halda áfram.

 

Eftir hádegið skellti ég kerrunni aftan í Blakk hinn Fagra og náði í Stelk sem að fékk far inní Gust með mér.Stelkur hefur náð að slasa sig í andliti en hann var með stóra kúlu fyrir ofan nefið sem að gróf í.Hann fór beint af kerrunni hjá Björgvin dýralækni í Gusti sem að doktoraði hann á staðnum.Það var leiðinlegt að afhenda hestinn svona en stundum ske slysin og grunar mig að hann Stelkur verður gróinn sára sinna áður en hann giftir sig.Minnsta kosti vona ég það.

 

Ég hitti fullt af skemmtilegu fólki inní Gusti fyrsta og gamla félaginu félaginu mínu.Hulda Geirs kom burrandi með börnin sín og var virkilega gaman að hitta hana.Var hún að fara að viðra börnin sín og hvar er betra en að viðra þau innanum skepnurnar.

 

Næst var að sækja hann Fönix hennar Möggu en hann var að útskrifast frá Agnari Þór tamningarmanni og er nú háskólamenntaður hestur.

Reyndar var ég í vafa þegar að við komum heim með hann hvort þetta væri réttur hestur! Svei mér þá ef að Magga hefur bara ekki fengið annan rauðskjóttann hest afhentann inní Gusti! En minnsta kosti þá líst mér mjög vel á þennan hest og til hamingju með hann Magga og látum Agnar ekkert vita að hann lét okkur hafa vitlausann hestJ.Þessi er svo rólegur og yfirvegaðurJ.

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (4)

22.02.2006 23:56

Með öndina í hálsinum og maganum:)

 

Maður er þvílíkt gleyminn,bloggar endrum og eins og er svo að gleyma hinu og þessu.Ég man ekkert hvað ég var að gera í gær.................jú"þetta venjulega að gefa öllum að borða.Hrókur fékk að fara í annað sinn út með stóðhestefnunum hans Agnars og geri ég það ekki aftur að hleypa þeim út saman.Ætlunin var að þeir hreyfðu Hrók fyrir mig sem að þeir voru voðalega duglegir við, einsog líka núna.

En það kom að því að það fauk í hann gamla og þegar að ég var búinn að fylgjast með þeim í nokkurn tíma og einn af folunum var búinn að hanga svolítið lengi á hálsinum á honum þá fauk í hann og ég fékk að sjá hann reiðann í fyrsta skipti á ævinni að verða 8 vetra gamall.Hann borgaði fyrir sig og beit í hinn þannig að hann gat sér enga björg veitt.Ekki var hann nú lengi að sleppa þegar að ég lét prik vaða í rassgatið á honum.En svo hristi ég framan í hann plastpoka sem ég var með í vasanum og þá var hann fljótur að gleyma öllu öðru.Skellti ég honum inn og leyfði folunum að vera aðeins lengur útí rigningunni.

Folarnir voru fegnir þegar að ég hleypti þeim inn í nýspónaðar stíurnar og gaf þeim vel af heyi.Þeir eru að springa út og verða ansi flottir á búkinn.Leiknissonurinn er langflottastur af þeim og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.

 

Núna erum við að bíða eftir honum Bjarna sem að er að koma og sækja sér endur.Vel tókst að veiða þær greyin enda eftir að Hebbi stækkaði og dýpkaði tjörnina þá var einsog tappi hafi verið tekinn úr baðkari og seytlar vatnið að mestu niður úr jarðveginum og bara smá pollur fyrir þær að synda á.

Og svo kom Bjarni:

Bjarni og Þura komu og sóttu 5 andarkellingar og hrafninn sem að fyrirfór sér hérna fyrir nokkrum vikum á klaufalega hátt.Hentugt því Bjarna vantaði svona fínann hrafn í uppstopp.

Ekki stoppuðu þau lengi en kíktu þó á hvolpana og völdu sér eina tík og þá er öllum hvolpunum ráðstafað.Sú feita og stærsta fer að Torfastöðum eftir tvær vikur.Sú á eftir að vera í dekri þar:)))

 

Við hjónin vorum framí myrkur að mæla bilið á milli stauranna í titta/folalda hólfinu.Sóttum við staura og settum niður síðasta hornstaurinn og lögðum einn vír þannig að þetta er allt að komast á skrið.Reyndar verð ég að fara í húsasmiðjuna og kaupa hitt og þetta sem vantar uppá svo að þetta verði einsog kallinn vill hafa það.Það er sko ekkert verið að gera þetta fyrir næstu árin heldur næstu öldina:)) Hann vill gera þetta vel og er það hið besta mál.

Síðan löguðum við rafmagnsþráðinn á milli stíanna þannig að folöldin séu ekki að vesenast á milli með hausinn og éta frá hvort öðru.Ég tók nefnilega eftir því að hún Feilstjarna var alltaf pakksödd en samt alltaf hey hjá henni.Hún nefnilega bauð sér í veislu í næstu stíu með hausinn sinn og át með Freyju og bróður hennar.Feilstjörnu brá heldur betur þegar að nýji fíni þráðurinn gaf henni þetta rokna stuð og reyndi hún ekki að bjóða sér í matarboð í næstu stíu eftir það.Engil færði ég yfir til hennar í gær og er hann í rokna fýlu yfir því að hafa verið færður frá Kapellu vinkonu sinni.Hann étur ekki einu sinni heldur hengir haus útí horni.Hann þarf ekki að kvarta yfir stíufélaganum því hún er ekkert að ybbast við hann á nokkurn hátt.

 

Alltaf er maður að heyra eitthvað nýtt um fuglaflensuna.Núna er hún komin í Húsdýragarðinn og er veiran eitthvað óhraust og lélegt eintak af henni þar.Hún á að hafa fundist þar líka í fyrra og hitteðfyrra.Þannig að ég er óhrædd við að éta mína fugla enn sem komið er en ætla að skella þeim inn hið fyrsta.Reyndar vorum við hjónin að gúffa í okkur heimaalinni önd að hætti hússins hehehehe og ég stend enn upprétt og allsgáð.Þær eru ekkert smá góðar á bragðið og ég er stolt af því að geta framleitt í mig og mína hollan mat sem er ekki fullur af allskyns rotvarnarefnum og óþverra.Enda blómstar maður (í allar áttir).

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (0)

21.02.2006 12:21

Flott hross á Mánagrundinni!

20 Febrúar.

 

Við fórum austur í gær með bílinn okkar hann Black Beauty og Raggi og Hebbi kláruðu að gera við það sem vantaði uppá að hann fengi fulla skoðun.Ég var í pössun hjá Jóhönnu á meðan og undi mér bara vel í vistinni og var heilmikið blaðrað um hin ýmsu mál.Alltaf tilbreyting í því að fara og heimsækja skemmtilegt fólk og tala um heima og geima.Við Hebbi mættum gera meir af því.

 

Jiiii............Ég sá eitt af gömlu "barnabörnunum" mínum í Reiðhöllinni ínná Mánagrund í kvöld.Það var risastór ýkt flottur Brúnblesasonur.Ung stúlka var að prófa hann og þvílíkir taktar í kvikindinu!Flott fótlyfta,mikil yfirferð,tölti sjálfur en brokkaði ef að beðið var um með flottum fótaburði og mikilli mýkt!

Þarna voru sko nokkrir hundaraðkallar á ferð ef ekki millur því folinn er ekki nema tveggja mánaða taminn.

Svo er bara hvað skeður með framhaldið..............þarna gæti verið stórstjarna á ferð á gríns!!!!!!!!

Ekki sko Stórstjarna systir hans hehehe.Hún er bara fylfull útí haga og ekkert að sprikla svona flott hér í Ásgarðinum.

 

Tinna og Hringur mættu í höllina á námskeið hjá Sigga Sig og gekk þeim mjög vel á nýju fínu járningunni.Klárinn virkilega sáttur og einsog hann á að sér að vera.Ekkert nema yndið eitt.Við Tinna erum sko ánægðar.Reyndar var klárinn svolítið þungur á sér enda tekinn beint úr rúllu í morgun en hafði þó daginn til að skíta úr sér það mesta:)))

 

Ég setti ekkert hross út í dag vegna veðurs.Reyndar var gott veður framanaf deginum en ég eyddi honum í Keflvík við að ná í brauð fyrir dýrin á bænum og svo meira segja þreif ég bílinn að utan þannig að hann er orðinn verulega svartur og fínn en ekki grár og gugginn.Kannski tek ég hann í gegn á morgun að innan.

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (2)

18.02.2006 23:59

Gröfuvinna og tilhleypingar.

Ný aðferð var prófuð í dag við að gefa útiganginum.Hebbi fór á gröfunni niður í haga og náði efstu túllunum með henni niður af stæðunni og dreifði þeim um hagann.Ég tók plasið af og síðan söfnuðum við því saman og settum í boddýið gamla sem að er notað sem skjól og plastgeymlsa fyrir hrossin.Ekki veit ég hvenær þessir háu herrar geta tekið við plastinu og endurgreitt okkur bændum skattinn sem að Siv Friðleifs skellti á hér um árið.Það gekk nógu hratt fyrir sig en ekki gengur rassgat að koma hlutunum þannig fyrir að maður geti losað sig við plastið og fengið skilagjaldið greitt.

 

Hebbi var ekkert smá duglegur á gröfunni í dag.Eftir gjöfina í hrossin fór hann og dýpkaði andatjörnina okkar svo að blessaðar endurnar geti nú svamla um þessa síðustu metra í fínni tjörn áður en fuglaflensa drepur þær.Á ekki allt fiðrað að drepast í vor annars?Við fáum af og til símhringinar frá fólki sem er að losa sig við íslensku hænurnar sínar og vill að við tökum við þeim.Óttinn er orðinn svo mikill í fólki að hann er að drepa allann fiðurfénað í landinu!

 

Og enn hélt Hebbi minn áfram á gröfunni og næst fór hann uppfyrir stóra hesthús og gróf niður tvo staura og gerði holu fyrir þann þriðja.Mikið agalega verður folalda/titta hólfið flott þegar að það verður tilbúið.Mig hlakkar verulega til að hleypa greyjunum úta grænt nýsprottið grasið þegar að vora tekur og sól hækkar á lofti.

 

Verð að blogga um hana Snjóber kanínu................hún var að beiða í dag og skellti ég Hnoðra á hana! Þau eru bæði hvít Loop með lafandi eru og gaman verður að sjá hversu margir af ungunum fella eyrun.Pörun hefur gengið vel og er ég búin að para hátt í 10 læður en sumar af þeim eru að fara til nýrra eigenda.Fínt að þær fari með unga í sér svo að ég geti seinna meir sótt mér gæðadýr ef að mig skildi vanta á mitt bú:)))

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (3)

18.02.2006 00:37

Folalda/stóðtitta hólfið!

 

Það sem ég vildi hafa sagt en gleymdi var það að Hebbi minn er að byrja að grafa fyrir staurum svo að hægt verði að gera stórt og gott hólf til að hleypa folöldum og stóðhestefnunum útí þegar að vel viðrar.Byrjaði hann á að færa til gamlan refa/minkaskítshaug sem að Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs er að nýta og færði hann hauginn til.Síðan er að grafa fyrir öflugum hornstaurum,pota niður fínum sívalningstaurunum úr Húsasmiðjunni og skella þrefaldöldum vír á.Einnig ætlum við að setja hvítann borða svo að hrossin sjái betur girðinguna og hlaupi hana nú ekki um koll.Aðalega eru það folöldin sem að geta verið svo miklir kjánar þegar að þeim er hleypt út á stærra svæði.Ætli maður kíki ekki á reglugerðina um stóðhestagirðingar svo að þetta verði nú löglegt allt saman. Gott að vera vitur fyrirfram ekki satt:)))

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (2)

17.02.2006 23:59

Folalda/stóðhestahólf

Skemmtilegur dagur í dag.Magga og Inga komu og hjálpuðu mér við að hirða um folöldin,stóðhestefnin uppí stóra hesthúsi og gefa útiganginum á höndum!Ég nefnilega varð olíulaus rétt áður enn traktorinn komst útúr geymslunni.Við erum svoddann ógurlega kellingar við þrjár að við rúlluðum bara út einni rúllu í hrossin til að þau fengju nú eitthvað að borða í dag.Á morgun sæki ég olíu og klára að gefa greyjunum.Allir litu vel út eftir óveðrið sem að hefur verið hér undanfarna tvo daga.

Ég verð nú bara að monta mig pínu með hana Hemlu litlu frá Strönd.Hún sýnir óvanalega flottar hreyfingar og geysilega mikla fótlyftu.Ég hef aldrei séð annað eins í neinu ungviði og er ég spennt að vita hvernig hún verður þegar að hún stækkar meir.Feilsstjarna sú nýja undan Nökkva Smárasyni flýgur um á svifmiklu brokki og spyrnir vel í.Kannski ég skelli inn einsog nokkrum folaldamyndum:)))

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (1)

15.02.2006 23:56

Er að breytast í frosk eða eitthvað!

Kannski var ég ekkert lasin eða þá með skrópusýki sem er nú reyndar ekki líklegt því mér finnst afar gaman í vinnunni minni sem eru bændastörfin hér á bæ.Þá er það hitt,kannski er ég stíga mín fyrstu spor á breytingarskeiði kvenna.Vildi nú miklu frekar að ég færi á breytingartölt og þá á breytingaryfirferðatölt með háum fótaburði:)) Ég sé mig alveg í anda töltandi hér um túnin kófsveitt og vitlaus með Hebba á eftir mér að reyna að róa mig niður hehehehe.Verða ekki konur annars eitthvað æstari í skapinu á meðan á þessu stendur?Gott að maður er geðgóður fyrir.

Jæja þá.......ég var að fá gullfallegt merfolald í kvöld frá Jóel vini mínum og er það undan Smárasyninum Nökkva frá Kjalarlandi sem að Siggi Ragnars var að eignast í haust.Það verður spennandi að vita hvað hún Feilstjarna Nökkvadóttir gerir í framtíðinni en ætlunin er að gelda hana ekki.Hahahahahahaha...........Þarna náði ég ykkur! En án gríns þá vonar maður að það leynist kynbótahryssa í þessu merfolaldi og hægt verði að sýna hana í framíðinni.Nógu er hún falleg byggingarlega séð og lofthá og bollétt.

Af Orku og Hring er það að frétta að þau eru á góðri leið með að ná góðum bata.Hringur svosem jafnaði sig strax eftir sjúkrajárninguna og er búinn að vera í dekri hér heima en nú er alvaran að byrja aftur og fer hann fljótlega aftur í vinnuna sína inná Mánagrund til Tinnu og Jóns Steinars tamningarmansins míns.Tinna stefnir með Hring á úrtökuna fyrir Landsmót og er byrjuð á námskeiði hjá Sigga Sig.Vonandi að allt gangi upp og klárinn standi sig með hana og verði okkur til sóma.Þau eru svo flott par saman hún og Hringur.

Ég bara man varla hvað ég er búin að vera að bardúsa síðstu daga nema auðvitað að láta stinga mig með nálum og sjúgja úr mér blóð fyrir hinar og þessar rannsóknir.Svo vældi maður heil ósköpin öll í voðalega sætum og góðum lækni sem vildi allt fyrir mann gera.Þess á milli sat maður inni í hitakófi og leit ég stundum út í andlitinu einsog Kalkúnn á fengitímanum,eldrauð með hitastrókinn uppúr hausnum! Hvað er að ske eiginlega stelpur? Og strákar.........jafnrétti milli kynja hehehe:)))

 

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (3)

09.02.2006 23:59

Fúlt að vera lasin.

Eitt er það sem ég þoli ekki og það er að vera lasin með flensudrullu föst inni.Ég missti algerlega af gærdeginum og öllu fólkinu sem að kom og var að hrossast hérna.Boggi og Eygló komu og sóttu nokkur hross sem að ég var að passa fyrir þau á meðan þau spókuðu sig í löndunum.Svo kom Öddi og hann og Hebbi fylgdu Hring síðustu sporin niður á bakka þarsem hann var felldur í gröf.Tveir hestar voru felldir og ég lasin inni og gat ekki kvatt þá með brauðsneið sem ég er vön að gera.En svona er lífið og ekkert við því að gera.

Rasskellir-Rauður er seldur og fer hann norður í land til nýs eiganda og er það besta mál að klárinn fari að vinna fyrir mat sínum svona hraustur einsog hann er.Svo eru stelpurnar hjá Framtíðarræktun að koma í fyrramálið að versla sér Castor Rex kall fyrir hana Fríðu Opal Rex kerlingu.4 kanínur eru að fara á sveitabæ rétt fyrir utan Selfoss og einnig eru að fara kanínur á bæ á Skeiðunum.Endur í Fljótshlíðina og einn hvolpur undan Skvettu.Og svo ligg ég einsog drusla uppí rúmi og allt að verða vitlaust í sölu á dýrum!

Á morgun skal ég svoleiðis sparka í rassinn á mér og rífa mig uppúr þessum sleni.Taka inn lýsi og vola..........ný og hraustari manneskja:))))

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (10)

07.02.2006 23:46

Röngen eða Röntgen?

Ég er nú meiri druslan þessa dagana.Fór í bæinn á Mánudag með Hebba mínum og vorum við í læknisleik frá 8:30 til 14:00.Hebbi var þó meira og minna myndaður inní Dómus Medica og fékk held ég að prófa allar græjurnar þar.Ég fékk líka myndatöku af flestum líkamspörtum í þessum líka flottu röngten græjum.Já"ég veit ég sagði "læknisleik"þið sem að þurftuð að miskilja þetta pillið ykkur útaf blogginu mínu perrarnir ykkar.Haldið þið virkilega að ég fari að blogga um mig og Hebba hér í fína dýra hjúkkugallanum mínum og hann með hlustunarpípuna um hálsinn!Skammist ykkar og sveiattann á ykkur.

Það voru fleiri í læknisleik,en Hringur og Orka fóru líka í röngten til Egils og fannst enginn aðskotahlutur í fætinum á Orku og Hringur var bara marinn í hófbotni.En hann Egill sá nú annað að klárnum en hann er með stag sem að verður að laga sem fyrst.Mikið verður gaman að sjá klárinn þegar að hann er orðinn laus við stagið sem að virðist hrjá hann í reið.Ég setti þau út í dag í rúllu með folaldinu hennar Sabine og myndaði þau öll í bak og fyrir.Maður var bara montinn að horfa á hann Hring en hann tók þarna þvílíkar brokksyrpur á nýju fínu sjúkrajárningunni sinni og sá gat nú teygt á því og lyft í vinkilinn.Orka sýnir vart helti og spændi með þeim um allt.Hún er búinn með lyfjakúrinn sinn og virðist hófurinn hennar vera í lagi og ekkert er að grafa í honum.Ég er búin að panta sérsmíðaða skeifu hjá Helga hjá Helluskeifum og verður hann ekki lengi að redda því þegar hann fær málin á hófnum.

Best að skella inn nokkrum nýjum myndum í albúmin.Á morgun verð ég aftur á ferðinni að gefa útiganginum með cameruna.Það er eins gott að maður á nóg af plássi hér inná þessu bloggi en ég er ekki búin með nema 126 megabæti af 1024 megabætum sem maður fær til umráða!

Tengill á færslu

Bæta við áliti

Sýna álit (3)

03.02.2006 23:58

Klikkað að gera

Jæja gott fólk.Þá er að rifja upp dagana og reyna að koma lagi á þetta blogg mitt.Síðsta sem ég man að ég gerði um daginn var að ég gaf útiganginum heyrúllur og voru tíkurnar Busla og Tara duglegar að hjálpa mér við að verja rúllurnar á meðan ég náði af þeim böndunum.Reyndar var hún Busla svo dugleg við fyrstu rúlluna sem ég vanalega rúlla út svo að allir komist að og ég fái frið við þær næstu að hún varð undir henni!sem betur fer var ekki frost í jörðu og Busla greið hefur pressast duglega ofaní jörðina þegar að 300 kílóa rúllan pressaði hana niður.En hún kveinkaði sér ekki einu sinni heldur stóð bara upp og hristi sig.Ég held að tíkin sé úr stáli.

Loksins tókst mér að þrífa kanínubúrin vel og vandlega og setti ég inn hálm hjá þeim og gaf hressilega af heyi í heygrindurnar.Ég er að keyra salinn upp með fóðri og ljósi núna til að geta farið að para fyrstu dýrin.Núna er ég að prófa fóður sem að kona ein góð sagðist gefa sínum dýrum og er uppistaðan í Því korniBygg,maís og melassi.Vonandi spretta þær upp og fara að beiða en það gera kanínur.Kettir breima hunda lóða kindur blæsma kýr verða yxna og hryssur fara í hestalæti.Man ekki hvað ég geri:)))))

Síðan fórum við Hebbi næsta dag eftir kanínusalþrifin í bæinn og keyptum fóður og aftur fóður.Fóður og steinefni fyrir folöldin,fóður fyrir hænur og fashana hvolpafóður bæði þurrfóður og dósir og svolítið af mannafóðri í Bónus handa okkur.Meira að segja keypti ég mér gegningarskó sem hægt er að nota sem góða gönguskó líka.en það sem stóð uppúr eftir þennan dag var að við fórum bæði loksins til Gigtarsérfræðings og fengum fyrstu greiningu á öllum þessum verkjum okkar hjónin.Bæði erum við með gigt en Hebbi þó alvarlegri en ég aftir fyrstu rannsókn.en þetta kemur allt saman betur í ljós á mánudaginn en þá förum við í röngenrannsókn til að staðfesta þetta endanlega.Ég var svo óþekk hjá lækninum að hann sprautaði mig í (næstum í rassinn)í bakið og þá varð ég aftur stillt og þæg hehehe.Minnsta kosti þá var ég alltönnur manneskja í dag og alveg verkjalaus með öllu og það hefur ekki skeð í mörg ár og veit ég eiginlega ekki hvernig ég á að vera!Það er svo skrítið að hreyfa sig án verkja og kann maður það ekki almennilega og er alltaf í vörn með allar hreyfingar því maður býst við verk hér og þar.Núna verð ég eftir örfáa daga á þessum gigtalyfjum eflaust komin upp um allt og yfir allt og Hebbi greyið verður verður að hafa mig í bandi.

Í dag skelltum við okkur í Kópavoginn nánar tiltekið uppí Gust í Kópavogi með Orku og Hring til dýralæknis.Hringur hefur verið að kvarta eitthvað og verið eitthvað ekki einsog hann er vanur að sér og þá náttúrulega fer maður með hann til dýralæknis sem að skoðaði hann í krók og kima.Eftir mikil hlaup hjá mér fram og til baka þá komust við að því að hann var bara marinn í hófbotni og þarf að fara á sérstaka járningu og botna.Það er hið besta mál og Tinna fær hann aftur til sín svo að hún geti stefnt með hann á úrtökuna fyrir Landsmótið í vor.Svo var Orka greyið röngen mynduð og sást enginn aðskotahlutur í hófnum á henni en Egill Dýralæknir skóf hófinn næstum í tvennt og núna lítur hún fyrir að vera klaufdýr en ekki hófdýr.Merin stóð sig einsog hetja ódeyfð með öllu.En það var meira en þetta sem gert var við Orku,hún var fylprófuð og er fylfull sem ég þóttist vita eftir mínar fylskoðanir:) 

©2019 by Sjálfsþurftar búskapur. Proudly created with Wix.com